- Greinasafn -
LEIÐTOGA SAMTALIÐ

Stuðlar að samtali um leiðtogahugsun, menningu og manngæsku
mars 2025
Leiðtogadansinn - jafnvægi milli Egó og gilda! Ein af stærstu áskorunum leiðtogans

Birtingarmynd leiðtogahegðunar má líkja við dans, þar sem hvert skref endurspeglar flókið samspil egó og gilda innra með okkur. Hvernig til tekst með þetta samspil endurspeglast svo í samskiptum okkar við aðra. Allt eins og dansarar þurfa að taka tillit til eigin skrefa sem og dansfélaga sinna, þá þurfa leiðtogar að feta ákvarðanadansinn í starfi, í samhljómi við sjálfan sig, teymið og menningu fyrirtækisins.
Í leiðtogadansi nútímans geta athafnir og dansspor leiðtogans sveiflast frá því að vera taktföst og fagleg, yfir í vera klaufaleg og úr takti. Að ná tökum á að verða leiðandi afl til árangurs, krefst skilnings á eigin getu til að iðka jafnvægi milli egósins og gilda. Að vita hvenær er tími til að vera leiðandi og hvenær fylgjandi, hvenær egóið stígur á svið og hvenær er tími til að leyfa gildum að ráða för, breytir öllu.
Fáir dansar endurspegla þessa dýnamík betur, heldur en tangó. Þessi ástríðufulli og flókni dans krefst sterkrar tengingar bæði á sviði styrks og næmni. Margt líkt því sem gerist innra með leiðtogum á umbrotatímum þegar hinn innri tangó egósins og gildanna tekst á og setur tóninn fyrir menninguna sem verður allsráðandi í teymum.

Taumhald á egóinu
Egóið getur sannarlega verið áhrifamikið afl og ekki má gera lítið úr því, en þetta afl getur verið óútreiknanlegt og óstýrlátt. Þegar egóið æðir áfram óhindrað, getur það leitt til sjálfsmiðaðs og þröngsýns hugarfars þar sem ómeðvitað óöryggi ræður för og álítur að árangur sé einungis fólgin í ytri viðurkenningu og örstjórnun árangursrík leið teymisstjórnunar. Við þessar aðstæður fer allt samstarf úr takti, óöryggi vex, skilvirkni og árangur versnar - jafnvel þó leiðtogar hafi alls ekki ætlað sér að grafa undan teymum sínum og árangri, þá er það raunin.
Á sama tíma á heilbrigt egó sinn stað. Það hefur sannarlega áhrif á sjálfstraust, það eykur kjark og þor til að taka ákvarðanir sem eru nauðsynlegt hreyfiafl teyma. Hin raunverulega áskorun felst í jafnvægi – hafið taumhald á egónu til að tryggja það taki ekki yfir dansgólfið og stígi á gildin sem stuðla að trausti, tengingu og sameiginlegum árangri.

Valdefling gildanna
Að vera leiðandi afl með sterk fagleg og mannúðar gildi skapar umhverfi til vaxtar og árangurs. Þegar leiðtogar sýna í verki, heilindi, skilning og einlægni, skapast dansmenning þar sem traust og virðing vex meðal teymanna. Þetta styrkir ekki bara tilfinningu starfsfólks um að tilheyra, heldur stuðlar að sameiginlegum vexti og árangri.
Það er auðvelt að leiða með gildin að leiðarljósi þegar allt leikur í lyndi. En þegar staðið er frammi fyrir áskorunum kemur upp á yfirborðið hvort styrkur leiðtogans dregst meira að egóinu eða gildunum. Þá skilja gildin að milli þeirra sem búa yfir fagmennsku og heilindum til að ná endurteknum árangri fyrir heildina og þeirra sem spenna sína eigin fallhlíf og taka enga ábyrgð á eigin gjörðum og afleiðingum.
Þegar leiðtogar sýna leiðandi hegðun þar sem gildin og fagmennska er undirtónninn og hafa taumhald á egóinu, bjóða þeir öðrum að gera slíkt hið sama. Úr verður taktfastur og stefnumiðaður dans heildarinnar sem getur birst í auknum viðskiptaárangri og meiri starfsánægju en getur líka birst í að tekist er á við erfið aðstæður af fagmennsku og virðingu.

Hver eru lykilatriði í að feta leiðtogadansinn af jafnvægi
Að öðlast jafnvægi milli gilda og egósins krefst meðvitaðrar ákvörðunar. Tók saman nokkur dansspor sem gætu gagnast á vegferð að jafnvægi.

- Skilgreinið ”Dansinn” - Skilgreinið með skýrum hætti hvað árangur þýðir á ykkar vegferð, bæði stóran og smáan. Skýr sýn ykkar og tilgangur leiðir aðra miklu betur að settu marki.
- Meðvitund um eigin styrk/veikleika - Gefið ykkur tíma reglulega til að endurhugsa ykkar hvata og lærið að átta ykkur á hvenær þið leyfið egóinu að vera ráðandi og hvernær gildin eru í forgrunni í daglegu starfi.
- Ómeðvitaðir fordómar - Bæði meðvitaðir og ómeðvitaðir fordómar hafa áhrif á ákvarðanatöku okkar. Mikilvægt er að skilja hvaðan þessir fordómar eiga rætur, það hjálpar ykkur að vera leiðandi af meiri heilindum og sanngirni.
- Skýrar væntingar - Tryggið að allir hafa góðan skilning á hlutverki og ábyrgð sem felst í starfi þeirra. Skýrleiki hvetur til ábyrgðar, trausts og skilvirkni.
- Virðing fyrir fjölbreytileikanum - Fagnið fjölbreyttum sjónarhornum innan teymisins. Með því að meta ólík sjónarmið styrkirðu leiðtogafærni þína og hvetur til nýsköpunar og nýrrar nálgunar við að mæta áskorunum.
- Hvetjið til samstarfs - Ég er af því við erum, maður gerir ekkert einn! Taktu af skarið sem leiðandi afl og sýndu fordæmi í að skapa umhverfi þar sem styrkleikar hvers og eins eru metnir. Það styrkir teymisandann og skapar árangur.
- Opin fyrir endurgjöf - Vertu leiðandi í að uppbyggilegri endurgjöf sé fagnað. Þegar teymismeðlimir finna til öryggis að geta deilt sjónarmiðum án dómhörku, vex teymisandinn og leiðtogafærnin.
- Öguð forgangsröðun - Hafið aga á að fokusera á það sem skiptir mestu máli fyrir árangur. Tengið í sífellu verkefni við grunngildin og meginmarkmið fyrirtækisins og standið vörð um jafnvægið milli þeirra í leiðtogadansi ykkar.

Með því að nýta sér þessi dansspor geta leiðtogar skapað umhverfi þar sem dansmenning er taktföst, skemmtileg og árangursrík. Tangó dansinn er krafmikil samlíking sem minnir okkur á að bestur árangur næst í samstarfi sem er byggt á sameiginlegum gildum og þar sem pláss er fyrir ólíka einstaklinga og ólík sjónarmið. Leiðandi og fylgjandi öfl eru nauðsynleg og það að leita jafnvægis milli egósins og gilda er hluti af daglegu starfi.
Þegar leiðtogar hafa hugrekki til að vera leiðandi afl heilinda, virðingar og ábyrgðar, skapast dansmenning þar sem heildin er sterkari en hver einstaklingur fyrir sig og áhrifin eru mögnuð.
Hvernig velur þú að vera leiðandi afl í daglegu starfi?
Kær kveðja,

Ella Björnsdóttir
Framkvæmdastjóri, Valhalla